Um mig

Ég ætlaði aldrei að verða heilsumarkþjálfi. En heilsumarkþjálfunin bjargaði mér og ég varð ástfangin fyrir vikið. Ég vildi verða arkitekt eins og afi. Beint eftir stúdentinn flutti ég því til Berlínar og hóf nám í arkitektúr. 

Allt í einu var ég tvítug stelpa alein í risastórri borg, talaði smá þýsku en langt frá því að vera altalandi og komin út í nám sem ég hafði ekki hugmynd um hvort hentaði mér. Þetta var mikið andlegt álag sem olli því að exemið mitt versnaði til muna.

Í dag sé ég hvað það fólst mikill lærdómur í þessum tíma, en það er ekki séns að ég hefði trúað því þá. Núna hef ég sæst við exemið mitt og er meira að segja svolítið þakklát fyrir það eða ég held að ég geti sagt að ég sé bara mjög þakklát fyrir það. 

Exemið  er algjör driffjöður í lífi mínu sem hvetur mig áfram í að finna lausnir að góðri heilsu og vellíðan og í því að skilja tenginguna á milli líkama og sálar. Exemið hefur líka kennt mér að standa með sjálfri mér, gangast við tilfinningum mínum og kynnast veikleikum mínum og styrkleikum.

Ég kláraði arkitektanámið árið 1996 og hef verið heima á Íslandi síðan. Haustið 2007 veiktist ég alvarlega af bólgusjúkdómi í himnunni sem umlykur hjartað. Ég var frá vinnu í fjóra mánuði og stóð frammi fyrir því að geta mögulega aldrei unnið aftur. 

Í ljósi aðstæðna leitaði ég allra leiða til þess að hjálpa mér sjálf. Svo dásamlega vildi til að ég datt inn á skóla í New York sem kenndi heilsumarkþjálfun. Ég skráði mig í fjarnám með því markmiði að læra lækna sjálfa mig. Ég hafði engu að tapa. 

Árið 2012 útskrifaðist ég og í dag er ég heilsu-arkitekt; ég starfa að hluta sem arkitekt hjá Arkibúllunni og að hinum hlutanum sjálfstætt sem heilsumarkþjálfi. Arkitektúr og heilsa eru að mínu mati nátengd hugtök þar sem þau fást bæði við að efla heilsu og vellíðan.

Við byggingu rýmis er auðvitað leitast eftir að skapa eitthvað sem býr yfir fegurð og praktík en fyrst og fremst ætti það að stuðla að vellíðan þeirra sem staldra við í rýminu. Alveg eins og við leggjum okkur fram við að vera falleg og praktísk, en í lok dags skiptir mestu máli að við hvílum vel í sjálfum okkur, að okkur líði vel í rýminu sem við sköpum sjálfum okkur. 

Ég er gift og móðir þriggja misstálpaðra unglinga en þau má finna á myndinni fyrir neðan og almennt á ráfi um Vesturbæinn. Síðustu ár hef ég haldið reglulega námskeið í 10 daga hreinu mataræði ásamt matreiðslunámskeiðum með Oddrúnu Símonardóttur Heilsumömmu.

Einnig hef ég haldið fyrirlestra út um allan bæ, bæði fyrir vinnustaði og hópa. Ég hef verið með reglulegar vinnustofur hjá Grettistaki sem er náms- og starfsendurhæfing hjá Reykjavíkurborg og haldið námskeið um samskipti, hvernig við getum bætt samskipti okkar við okkur sjálf og aðra. 

Ég brenn fyrir heilsu og tel að maturinn sem við borðum sé bensínið okkar. Hins vegar hef ég reynt það á sjálfri mér og öðrum að ef andlega hliðin er ekki í lagi, þ.e.a.s. okkur líður ekki vel, þá höfum við lítinn áhuga á heilsu og hollu matarræði. Þess vegna er svo mikilvægt að skoða vel önnur lykilatriði eins og starfið okkar, samband okkar við aðra, svefn, streitu og fleira sem hefur áhrif á okkar daglega líf. 

Mitt markmið er ekki að dreifa boðum og bönnum. En lífið okkar er fullt af venjum. Ef við getum skapað ný hugsanamynstur, getum við skapað nýjar venjur og þar með lífið sem okkur langar í. 

Mitt markmið er að aðstoða aðra við að breyta hugarfari sínu svolítið, vera svolítið betri við sjálfan sig, borða svolítið hollari og bjartari mat og lifa til langtíma mun betra lífi.